Bláfjallagöngunni, sem upphaflega átti að fara fram helgina 10.-11.febrúar hefur enn verið frestað, nú til sunnudagsins næstkomandi, 25.mars. Þetta kemur fram á heimasíðu skíðagöngufélagsins Ullar.
Gangan átti að fara fram á morgun, laugardag, en vegna veðurs hefur þessi ákvörðun verið tekin.
Nú hefur þurft að fresta göngunni þrisvar sinnum og er vonandi að takist að halda keppnina að þessu sinni. Ástand snjós hefur ekki verið gott í Bláfjöllum undanfarið vegna bleytu. Ennþá virðist þó vera ágætis þykkt á snjóalögum. Gönguskíðafólk er því vongott um að skíðaspor geti verið lagt í Bláfjöllum út apríl.
Fyrir þá fjölmörgu sem eru um þessar mundir að ná tökum á gönguskíðaíþróttinni og eru jafnvel að stefna á Fossavatnsgönguna í lok apríl er upplagt að taka þátt í Bláfjallagöngunni.
Þess má geta að Stromaskautinu, sem átti að fara fram samfara Bláfjallagöngunni, hefur alfarið verið aflýst.