Hraundrangi í Öxnadal er sveipaður ljóðrænum dýrðarljóma í hugum Íslendinga enda gegnir hann lykilhlutverki í hinu fallega ljóði Jónasar Hallgrímssonar Ferðalok. En Hraundrangi er líka draumaverkefni fjallaklifrara.
„Það var alveg stórkostleg lífsreynsla og ein eftirminnilegasta fjallganga sem ég hef farið í,“ segir Kristján Eldjárn Hjartarson á Tjörn í Svarfaðardal um klifurferð á Hraundranga í Öxnadal árið 2010.
„Þetta er mögulega sú flottasta og hef ég þó gengið á þau mörg fjöllin hér á Tröllaskaga,“ segir Kristján sem m.a. starfar sem leiðsögumaður.
„Þetta er líka í fyrsta sinn sem ég hef farið með öðrum leiðsögumönnum og notað klifurbúnað til að ná tindi og það var í sjálfu sér alveg einstök upplifun. Þetta er fjall sem maður hafði horft á alla sína hundstíð og tæpast trúað því að maður ætti eftir að upplifa það að standa á toppi þess.“
„Uppi á toppnum er innan við hálfs fermetra flötur og því tæplega pláss fyrir einn mann að standa.“
Hraundrangi gnæfir yfir Öxnadal og Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu í 1075 metra hæð yfir sjó. Hann hefur hlotið frægð sína aðallega af lögun sinni. Hann er gífurlega oddhvass en uppi á toppnum er innan við hálfs fermetra flötur og því tæplega pláss fyrir einn mann að standa. Hraundrangi myndaðist skömmu eftir ísöld í miklu berghlaupi, en í berghlaupi hrynur hlíðin bókstaflega utan af fjalli og eftir stendur harðara berg sem í þessu tilfelli er Hraundrangi.
Á Vísindavefnum segir frá því að lengi fram eftir öldum hafi dranginn verið talinn ókleifur og spunnust um hann margar þjóðsögur. Ein þeirra segir frá því að á tindinum væri kútur fullur af peningum og skyldi hann falla þeim í skaut er fyrstur klifi Hraundranga.
Það var ekki fyrr en 5. ágúst árið 1956 að mönnum tókst að klífa drangann. Þar voru á ferð Finnur Eyjólfsson, Sigurður Waage og Bandaríkjamaðurinn Nicholas Clinch.
Nicholas Clinch er vel þekkt nafn í fjallamennsku. Hann féll frá árið 2016 eftir langan og ævintýralegan feril. Hann var m.a. fyrstur til að leiða leiðangur upp á ellefta hæsta tind heims, Gasherbrum I, eða The Hidden Peak (8.080m). Það gerði hann árið 1958, eða tveimur árum eftir að hann var í fyrsta leiðangrinum upp Hraundranga.
Finnur var kjötiðnaðarmaður að mennt og starfaði lengi við Reykhúsið á Grettisgötu og í Skipholti. Hann var virkur félagi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík á yngri árum.
„Nú hefur vinur minn klifið sinn hinsta topp,“ skrifaði Sigurður Waage í minningargrein um Finn í ágúst 2014. Þeir voru vinir alla tíð, kynntust sem ungir menn í gegnum skíðaíþróttina. Sigurður sjálfur er fyrrum framkvæmdastjóri Sanitas og er kominn yfir nírætt.
„Í ágúst 2016 fékk Sigurður sér sitt fyrsta húðflúr, 88 ára að aldri.“
Þegar á tind Hraundranga var komið beið þeirra þremenninganna enginn digur sjóður, en að öllum líkindum voru þeir ekki á höttunum eftir þess konar auði með athæfi sínu. Það er augljóst að minningin um ferðalagið hefur verið þeim nægur fjársjóður alla tíð, enda töfrar Hraundranga slíkir og afrekið mikið.
Til vitnisburðar um það er þetta:
Á 60 ára klifurafmæli Hraundrangaævintýrisins í ágúst 2016 fékk Sigurður sér sitt fyrsta húðflúr, 88 ára að aldri. Hann lét húðflúra mynd af Hraundranga á framhandlegg sinn.