Að sitja í kayak á Langasjó í blankalogni og horfa á mosavaxin fjöllin meðfram vatninu speglast á vatnsfletinum er ógleymanleg lífsreynsla. Í fyrsta þættinum af sjónvarpsþáttunum Úti er farið í svona leiðangur. Vinkonurnar Steiney Skúladóttir og Saga Garðarsdóttir slást í för með þáttastjórnendum, Brynhildi Ólafsdóttir og Róbert Marshall, í kayakaferð um þessa paradís á hálendi Íslands.
Sjónvarpsþættirnir Úti verða á dagskrá RÚV sex næstu sunnudagskvöld. Í fyrsta þættinum, strax eftir kvöldfréttir, er líka farið í Kerlingafjöll með fjölskyldufólki og útivera stunduð með börnum í frábæru umhverfi. Líklega hefur fólk ekki sést í sjónvarpi áður renna sér niður jafnlanga brekku á ruslapoka eins og þar.
„Á páskadag mun þjóðin geta séð forseta sinn, Guðna Th. Jóhannesson, glíma við hæsta tind Íslands í frábæru vorveðri.“
Fleiri sögur af útivistarævintýrum valinkunnra Íslendinga með Róbert og Brynhildi verða svo sagðar í hverjum þætti á eftir öðrum. Á páskadag mun þjóðin geta séð forseta sinn, Guðna Th. Jóhannesson, glíma við hæsta tind Íslands í frábæru vorveðri. Svo er farið á fjallahjólum að fjallabaki, klifrað í klettum við Hnappavelli og í íssprungum á jökli. Fjórum konum er fylgt eftir í viðureign sinni við Landvættaáskorunina á síðasta ári. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hleypur sjö tinda í Vestamannaeyjum og Andri Snær Magnason rithöfundur sýnir snilldartakta í Tindfjöllum, á skíðum og á hjóli.
Og fleira skemmtilegt verður á boðstólnum. Eins og nafn þáttanna gefur til kynna eru þættirnir framleiddir af sama fólki og stendur að baki þessari vefsíðu og tímaritinu Úti. Dagskrárgerðin er eins og áður segir í höndum þeirra hjóna Róberts og Brynhildar sem bæði hafa mikla reynslu af fjölmiðlum og hafa um árabil annast leiðsögn á fjöllum.
Aðalhlutverk þáttanna er hins vegar í höndum náttúru Íslands. Hún skartar sínu fegursta. Myndatakan er stórbrotin. Hana annast Tómas Marshall.
„Þetta land er eitt stórt ævintýri.“
„Það er búið að vera frábært að vinna að þessu verkefni,“ segir Brynhildur. „Það er hægt að gera svo ótrúlega margt skemmtlegt úti í íslenskri náttúru. Þetta land er eitt stórt ævintýri.“