Sú tilfinning vaknar þegar gengið er inn eftir Steinholtsdal í Þórsmörk að þetta sé einn af þessum týndu dölum í þjóðsögunum þar sem höfðust við forynjur og útilegumenn. Þetta er gönguleið sem er svo nærri veginum inn í Þórsmörk að undrun sætir að hún sé ekki svo fjölfarin að þar hafi myndast göngustígur. En kannski er hún einfaldlega of nálægt alfaraleið til að nokkur gefi henni gaum.

Innst í dalnum eru hólar úr skriðum flóðsins.

Nú þegar það fer að verða æ betri hugmynd, með hækkandi sól, að bregða sér inn í Þórsmörk er full ástæða til að mæla með Steinholtsdal sem viðkomustað á leiðinni.

Leggið bílunum úti í kanti hjá stóru steinunum úr hamfaraflóðinu 1967 eftir að farið er yfir Steinholtsá og gangið upp með ánni og fyrir ranann sem myndar svokallaðar suðurhlíðar. Þá blasir dalurinn við í allri sinni dýrð.

Stóru grjótin sem eru þarna á víð og dreif eru úr fyrrnefndu flóði en þá féll gríðarleg bergfylla ofan á Steinholtsjökulinn sem myndaði sprengingu sem mældist á jarðskjálftamælum í Vík í Mýrdal. Talið er að bergfyllan hafi verið 15 milljónir rúmmetra bergefnis og að sprengingin við fall hennar ofan á jökulinn hafi brætt um 175 milljónir rúmmetra íss sem bættist í flóðvatnið en auk íssins var lón við jökulsporðinn.

Hólarnir innst í dalnum eru ekki jökulruðningar heldur skriðuefni úr flóðinu enda er ekki að finna á þeim neinar jökulrákir.