Mýtan um skaðsemi kynlífs fyrir keppni nær aftur til Forn-Grikkja. Þeir héldu því fram að ef keppandi væri sveltur um kynlíf myndi hann fyllast af baráttuvilja og orku.
Margir íþróttamenn hafa lýst því yfir að þeir sleppi kynlífi fyrir keppni til að halda fókus og spara kraft. Jafnvel Rocky sjálfum, boxara, var ráðlagt að halda sig frá konum fyrir keppni þar sem þær veiktu fætur hans.
Í rannsókn sem Oxford University gerði á þátttakendum í London maraþoninu árið 2000 kom í ljós að þeir sem höfðu stundað kynlíf kvöldið fyrir keppni voru að meðaltali 5 mínútum fljótari í mark en þeir sem höfðu barið niður kynlífslöngun sína.
Aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið, reyndar aðeins á karlmönnum — sem er athyglisvert — sýna að kynlíf hefur engin áhrif á frammistöðu íþróttamanna nema ef kynlífið er stundað innan við tveimur tímum fyrir keppni. Þá kann það að draga úr frammistöðu. Staðreyndin er hins vegar sú að tveimur tímum fyrir keppni eru flestir íþróttamenn frekar á klósettinu en í rúminu.
„Á grunni rannsókna virðist óhætt að fullyrða að þegar kemur að keppni geti fólk óhrætt skellt sér í bólið.“
Ef bólfarirnar hafa áhrif á svefninn er ekki ráðlagt að stunda þær dagana fyrir keppni sérstaklega ef áfengisneysla fylgir með. Aftur á móti framleiðir líkaminn endorfin þegar stundað er kynlíf og hefur það góð áhrif á svefninn og hjálpar til að ná góðri slökun. Þannig að, á grunni rannsókna virðist óhætt að fullyrða að þegar kemur að keppni geti fólk óhrætt skellt sér í bólið og stundað eins mikið kynlíf og það getur í aðdraganda keppnisátaka.