Töluverður uppgangur hefur verið í kajaksenunni á Íslandi síðustu ár og ekki síst fyrir tilstilli árlegu kajak-keppninnar Túrbó Kayak Festival sem Arctic Rafting stendur fyrir. Í ár verður keppnin haldin 17. ágúst næstkomandi og verður keppt í tveimur greinum: svigkeppni og spretti. Í svigkeppni, eða „slalom”, keppast þátttakendur um að ná besta tímanum niður fljótið og þurfa að klukka sig inn á fána á nokkrum stöðum. Ef ekki tekst að klukka sig inn fær þátttakandi tímarefsingu. Sprettur er svo aðeins einfaldara fyrirkomulag en þar reyna keppendur að komast niður ákveðinn kafla í fljótinu á sem stystum tíma. Keppnin er innblásin af eldri hefð en Kayakklúbburinn stóð fyrir Tungufljótskappróðrinum árin 2006-2012 en stofnendur klúbbsins voru brautryðjendur straumvatnskajaksportsins á Íslandi og hafa átt stóran þátt í vexti íþróttarinnar hér á landi. Markmiðið með Túrbó er fyrst og fremst að sameina kajak-áhugafólk með skemmtilegum viðburði og að lokinni keppni er haldið á Drumboddsstaði þar sem fram fer verðlaunaafhending og skemmtun um kvöldið. Eins og nafnið gefur til kynna þá er Túrbó ekki einungis keppni heldur hátíð og því tilvalið fyrir alla sem hafa áhuga á útivist að skella sér og fylgjast með keppninni. Skráning og allar frekari upplýsingar má finna hér. Instagram: Túrbó Kayak Festival og Arctic Rafting. Ljósmyndir: Björn Júlíus Grímsson og Zöe Ruth Erwin.
Vaxandi vinsældir utanvegahlaupa hafa varla farið framhjá mörgum undanfarin misseri, bæði hér á Íslandi sem og víðar. Einn fylgifiskur þeirra eru spennandi utanvegahlaupakeppnir sem sprottið hafa upp á mörgum fegurstu svæðum landsins. Það nýjasta er Öræfahlaupið en það verður haldið 31. ágúst næstkomandi og fer með fólk eftir 23 km af stórbrotnu umhverfi Skaftafells sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarðinum. Hlaupið hefst við þjónustumiðstöðina í Skaftafelli en hlaupaleiðin liggur um Kristínartinda þar sem frábært útsýni er um fjalllendi Öræfanna og þaðan er svo hlaupið inn í hinn fagra Morsárdal áður en haldið er til baka að þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli. Hækkun leiðarinnar er um 1.000 metrar en hlaupaleiðina má finna á Strava og frekari upplýsingar um keppnina og skráningu má finna hér.
Brautarmet voru slegin í bæði karla og kvennaflokki í Þórsmerkurhlaupinu Volcano Trail Run um helgina þrátt fyrir að aðstæður hefðu verið krefjandi á köflum. Guðni Páll Pálsson kom í mark á tímanum 01:05:01 og Astrid Olafsdottir á 01:26:58. En hlaupið var haldið í sjötta sinn um helgina og yfir 100 keppendur voru skráðir til leiks. Þórsmerkurhlaupið, sem hefur verið valið eitt af bestu utanvegahlaupum landsins og telur 12 kílómetra, hefst við skála Volcano Huts í Húsadal og er hlaupið inn Húsadalinn áleiðis upp Laugaveginn. Beygt er af leið til hægri í áttina að Langadal þegar komið er upp úr Húsadal og farið af stígnum upp á Slyppugilshrygg og þaðan niður í Slyppugilið. Þaðan er beygt í átt að Tindfjallasléttu og niður Stangarháls að Stóraenda. Síðan er hlaupið eftir Krossáraurum að Langadal og stefnan er tekin upp Valahnúk. Þar tekur við 275 metra hækkun, en síðan liggur leiðin niður að vestanverðu að endamarkinu í Húsadal. Saga Þórsmerkurhlaupsins telur 6 ár, en hlaupið er haldið af Volcano Huts sem reka gisti- og veitingaþjónustu í Húsadal. Fyrsta árið tóku um 20 manns þátt en í fyrra voru um 170 manns skráðir. Í samtali við Bjarna Frey, framkvæmdastjóra kom fram að hugmyndin hafi kviknaði þegar gestir frá Bandaríkjunum hlupu um Þórsmörk þvera og endilanga. Þá áttuðu mótshaldarar sig á því að stór hópur fólks ferðast í þeim tilgangi að hlaupa leiðir og stíga í fallegu umhverfi. Þá langaði því að bjóða fólki upp á skemmtilega upplifun í kringum þessa útivist. Nokkur fjöldi erlendra hlaupara hafa tekið þátt undanfarin ár og fer þeim fjölgandi á hverju ári. Að sögn Bjarna hafa þeim borist nokkrar fyrirspurnir […]
Hálendishlaupið Fire and Ice Ultra var ræst í dag í áttunda skipti. Þetta 250 km ofurhlaup á Norðausturlandi var fyrst hlaupið árið 2012. Lagt var af stað frá Dreka í Dyngjufjöllum í Vatnajökulsþjóðgarði. Þátttakendur hlaupa með allt á bakinu og gista í tjöldum í sex nætur. Komið verður í mark í Ásbyrgi laugardaginn 31.ágúst. Um 50 manns taka þátt, en það er ámóta fjöldi og undanfarin ár. Þátttakendur koma frá 14 löndum: Póllandi, Bandaríkjunum, Kanada, Spáni, Frakklandi, Ítalíu, Portúgal, Þýskalandi, Sviss, Filippseyjum og Belgíu. Einn keppandi er frá Íslandi. Flestir þátttakendur koma frá Bretlandi, en þeir sem koma lengst að eru frá Ástralíu. Fjórir hlauparar taka núna þátt í annað skipið, tveir fyrir nokkrum árum og tveir tóku líka þátt í fyrra. Talsverður vindur var fyrsta hlaupadaginn, en allir þátttakendur skiluðu sér heilu og höldnu á leiðarenda fyrstu dagleiðina. Hægt er að fylgjast með á fésbókarsíðu hlaupsins. Og í 2.tbl Úti var hin prýðilegasta umfjöllun um Fire and Ice hlaupið. Erfiðasta hlaup Íslands, án efa.