Útihreyfingin stefnir á að verða besta útivistarfyrirtækið á Íslandi en hún býður uppá hreyfiverkefni og ævintýraferðir af margvíslegum toga. Nú þegar æfa á annað hundrað Íslendinga með Útihreyfingunni nokkrum sinnum í viku um allt land en einungis tveir mánuðir eru síðan hún hóf starfsemi sína. Þátttakendur æfa í samræmi við markmið sín og áætlanir í skíðagöngu, langhlaupum, fjallamennsku, fjallahjólreiðum, klifri, fjallaskíðum og sjósundi.
Útilíf er ein fremsta íþrótta og útivistarverslun landsins og stefnir á að efla sig enn frekar á því sviði. Hluti af þeirri vegferð er endurmörkun og staðfæring fyrirtækisins með opnun nýrrar sérhæfðrar útivistarverslunar í Skeifunni ásamt því að byggja upp The North Face vörumerkið. Útilíf ætlar sér að verða fyrsti valkostur þeirra sem stunda útivist og almenna hreyfingu utan- og innandyra.
Hörður Magnússon, framkvæmdastjóri, segir þau hjá Útilíf hafa fylgst af áhuga með undirbúningi og stofnun Útihreyfingarinnar: „Þar er kominn saman ótrúlegur kraftur, útivistaráhugi og gífurleg reynsla í útivistinni. Þessi blanda er alveg einstök. Útilíf byggir á áratuga reynslu í sölu útivistar- og skíðavara og stefnir enn hærra með nýjum áherslum. Markmið Útilífs og Útihreyfingarnar eiga einstaklega vel saman og við hlökkum til samstarfsins.“