Helga María Heiðarsdóttir, fjallaleiðsögumaður og hlaupaþjálfari, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Útihreyfingarinnar, nýstofnaðs útivistarfyrirtækis sem sérhæfir sig í ævintýramiðaðri krossþjálfun og útiævintýrum af ýmsum toga. 

Fyrirtækið hóf starfsemi sína í sumarlok og býður upp á fjölbreyttar útiæfingar nokkrum sinnum í viku fyrir öll getustig, fjallgöngur, skíðanámskeið, landvættaþjálfun, fjallahjólaferðir og margt fleira. Æfingakerfi Útihreyfingarinnar miðar að styrk, úthaldi, jafnvægi, liðleika og viðhaldi þols svo fólk sé ávallt reiðubúið í næsta ævintýri, heima og erlendis. 

Þá býður Útihreyfingin einnig upp á fyrirlestra og fræðslu um valdeflandi útivist og hreyfingu, liðsheildar- og forystunámskeið fyrir stjórnendur auk hvata- og óvissuferða fyrir vinnustaði.  

Helga María er jöklafræðingur að mennt og fjallaleiðsögumaður til margra ára. Hún hefur undanfarin ár verið umsjónarmaður Náttúruhlaupa en starfaði einnig um árabil hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Hún er um þessar mundir formaður Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi og hefur mikinn áhuga á allri útivist og heilsu. 

„Minn hamingjustaður hefur verið úti síðustu tvo áratugi og ég er því  mjög spennt að fá að vera hluti af Útihreyfingunni, hópi sem hefur mikla ástríðu fyrir allri útivist og ævintýramennsku! Hugmyndafræði Útihreyfingarnnar hentar mér fullkomlega þar sem ég hef aldrei getað valið mitt uppáhalds útivistarsport og hef því bara látið áhuga og veður ráða vali, svo er fjölbreytni auðvitað lykillinn að góðu formi og líkur á meiðslum mun minni en þegar bara er stunduð ein íþrótt,“ segir Helga María.