Flestir hlauparar eiga sér tvær til fjórar hlaupaleiðir sem hefjast við útidyrnar og þræða sig mislanga hringi aftur til baka. Ekkert að því. En þeim fer fjölgandi sem leita út fyrir bæjarmörkin og vilja helst hlaupa í náttúrunni.
Undanfarin ár hefur orðið sannkölluð sprenging í utanvega- og náttúruhlaupum hér á landi. Til marks um það tvöfaldaðist fjöldi keppenda í helstu utanvegahlaupum á milli áranna 2019 og 2021. Einn af þeim sem kolféll fyrir slíkum hlaupum er Ólafur Heiðar Helgason og nú hefur hann sent frá sér sína fyrstu bók, Hlaupahringir á Íslandi. Þar er að finna lýsingar á 36 hlaupaleiðum um allt land fyrir bæði byrjendur og lengra komna. Fjallað er um bæði aðgengilegar leiðir nálægt þéttbýli og stórbrotnar utanvega- og náttúruleiðir sem opna hlaupurum og lesendum bókarinnar ný sjónarhorn á Ísland.
Hlaupahringirnir eru fjölbreyttir og liggja um fjöll, öræfi, sveitir, skóga og strendur. Leiðarlýsingar eru sérsniðnar að þörfum hlaupara og þeim fylgja fjöldi ljósmynda, vönduð kort og GPS-ferlar sem gera bókina einkar notadrjúga. Í þessari bók geta allir fundið leiðir við sitt hæfi.
Ólafur Heiðar Helgason hefur áralanga reynslu af hlaupum og útivist og yfirgripsmikla þekkingu á íslenskri náttúru og staðháttum auk þess sem sögulegur fróðleikur er víða kærkomin viðbót við nákvæmar leiðarlýsingar.
Þá er bara að skokka í næstu bókabúð.