John Snorri Sigurjónsson ætlar að freista þess að ná tindi K2, eins hættulegasta fjalls í heimi, á milli jóla og nýjárs og verða með því fyrstur til að klífa fjallið í vetraraðstæðum en það hefur verið reynt án árangurs í fjóra áratugi.

Við fjölluðum um leiðangur Johns Snorra í fyrsta tölublaði Úti árið 2017.

John Snorri er núna í þriðju búðum á fjallinu Manaslu í Nepal sem er áttunda hæsta fjall í heimi og er að nota þá fjallgöngu sem hæðaraðlögunarferð fyrir K2 sem hann kleif fyrstur Íslendinga fyrir tveimur árum.

Síðustu tvö ár hafa tilraunir til að klífa fjallið að vetri til runnið út í sandinn vegna þess að klifrarar, þeir einu á svæðinu sem voru hæðaraðlagaðir, voru kallaðir til í björgunarleiðangra á nágrannafjallið Nanga Parbat sem einnig er hærra en 8000 metrar. K2 er eina fjallið af 14 í heiminum sem ná yfir 8000 metra hæð sem ekki hefur verið klifið að vetri til. Það er gjarnan sagt erfiðasta fjall í heimi og hefur kostað mörg mannslíf í gegnum tíðina. Ólíkt Everest er ekki hægt að ganga á tindinn heldur kallar mjög brattur tindurinn á tæknilegt ísklifur á köflum og snjóflóð eru þar gríðarlega algeng.  Vetrarklifur á K2 er gjarnan sagt síðasta stóra áskorunin í fjallamennsku í heiminum.

Hér má lesa um fyrri leiðangur Johns Snorra á K2, að sumri.