Evrópufrumsýning á Artifishal, 80 mínútna heimildamynd Patagoniu verður í Ingólfsskála í Ölfusi 10. apríl. Í kjölfar frumsýningar hér verður myndin svo sýnd víða um heim. Myndin sviptir hulunni af þeirri dýrkeyptu ranghugmynd að bæta megi fyrir eyðileggingu vistkerfa með hönnuðum tæknilausnum, segir í fréttatilkynningu frá Patagonia. Rakin eru áhrif klakstöðva og opinna eldisstöðva, iðnaðar sem hamlar viðgangi villtra fiskistofna, mengar ár og eykur vanda sem hann þykist leysa. Í Artifishal er kafað undir yfirborðið og sýnt hvernig almennir borgarar reyna að hindra frekari eyðileggingu áa, villtra laxastofna og sjóbirtings.
Artifishal varpar ljósi á þrengingar villtra fiskistofna af völdum klak- og eldisstöðva. Sýndar eru klakstöðvar í Kaliforníu, Washington, Oregon og Idaho í Bandaríkjunum, auk þess sem sýndar eru aðstæður í eldisstöðvum og undirmálslax sem þar er framleiddur í miklu magni. Í neðansjávarupptökum aðgerðasinna í fallegum firði nærri Alta í Noregi má sjá eyðileggingu og sjúkdómum af völdum eldis í opnum sjókvíum.
„Maðurinn hefur alltaf talið sig æðri náttúrunni og það hefur komið okkur í mikil vandræði. Við þykjumst geta stýrt náttúrunni, en getum það ekki,“ segir Yvon Chouinard, stofnandi Patagoniu. „Ef við metum villtan lax einhvers þarf strax að grípa til aðgerða. Lífið er fátæklegra án óspilltrar náttúru og þessara merku tegunda. Glötum við öllum villtum tegundum, þá glötum við okkur sjálfum.“
Meirihluta laxeldisstöðva í Evrópu er að finna í Noregi og Skotlandi, þar sem þær hafa stórskaðað lífríki við ströndina. Opið eldi í kvíum á mikinn þátt í verulegri hnignun atlantshafslaxins. Stefnt er á veldisvöxt iðnaðarins í óspilltum fjörðum Íslands og hann heldur áfram að vaxa með ógnvænlegum hraða við Noreg, Skotland og Írland.
Hér má finna frekari upplýsingar um sýningar Artifishal, herferðina og undirskriftasafnanirnar: eu.patagonia.com/artifishal