Hvernig stendur á því að sumir eru hreinlega alltaf glaðir? Þessi týpa sem sér alltaf spaugilegu hliðina á málunum, brosir sífellt þegar þú sérð hana og virðist einhvern veginn líða í gegnum lífið án þess að mæta miklu mótlæti eða hafa fyrir hlutunum. Vildum við ekki öll geta búið við stanslausa hamingju?
Lukka í Happ skrifar.
Á tímum þar sem aukning er á greiningum sálrænna kvilla svo sem kvíða, þunglyndis og depurðar, að ekki sé minnst á lyfjanotkun er vert að skoða hvað við sjálf getum gert til að klæða líf okkar í hamingjuhjúp.
Er hamingja fólks tilviljun ein eða er hún ákvörðun sem er algjörlega í okkar höndum? Hverjir geta orðið hamingjusamir? Er hamingjuna að finna í öðru fólki eða verðum við að rækta hana innra með okkur sjálfum til að geta svo deilt henni með samferðafólki okkar? Er hún háð efnafræði eða örlögum?
Er kannski hægt að venja sig á að vera hamingjusamur?
„Matur er ekki bara til að seðja okkur og gefa okkur næringarefni.“
Að hluta til að minnsta kosti er hamingjan tengd boðefnum sem seyta um líkamann. Þegar einstaklingur greinist með þunglyndi notum við lyf sem auka magn boðefnisins serotonin í líkamanum. En það er hægt að hafa áhrif á magn boðefna og bólguástand líkamans með næringu og lífsstíl.
D-vítamín
Byrjum á sólinni. Þessum gleðigjafa sem fáir dá meira en við sem fáum lítið af henni meginhluta ársins. Líkaminn framleiðir D vítamín þegar geislar sólarinnar skína á húðina. Vísindamenn telja nú að reglulegur skammtur (4000-5000 alþjóðlegar einingar) af D vítamíni sé nauðsynlegur góðri heilsu. D vítamín er talið eiga þátt í vellíðan, góðum svefni, dragi úr bólgum og minnki depurð og dragi úr einkennum þunglyndis. Góður skammtur af D vítamíni getur þannig átt þátt í að draga úr neikvæðni og leiðindum og stuðla að hamingju.
Omega 3
Nú er talið að eina aðalorsök þunglyndis sé að finna í langvinnum bólgum í líkamanum. Það má vinna gegn þeim með bólguminnkandi mataræði svo sem fituríkum mat sem inniheldur vel af omega 3 fitusýrum. Feitur fiskur svo sem lax, silungur, lúða og túnfiskur innihalda góðar fiskiolíur sem geta stuðlað að bólguminnkun og þar með betri heilaheilsu og aukinni hamingju. Einnig er omega 3 fitu að finna í valhnetum, hörfræjum, hamp- og chiafræjum. Það eru þó löngu omega 3 fitusýrurnar í fiskinum (DHA) sem einkum ery taldar gera okkur glöð. Fyrir þá sem ekki borða dýr má finna þær í sjávargrænmeti svo sem þörungum. Aðrar hollar fitusýrur fáum við úr ólífuolíu, hnetum, fræjum, lárperu og grænu grænmeti.
Andoxunarefni
Margar af þessum hollu fitusýrum eru viðkvæmar og óstöðugar og þrána því auðveldlega ef þær verða fyrir skemmdum af völdum súrefnis. Ýmis andoxunarefni geta varið fitusýrurnar gegn skemmdum svo sem karótíníðar (guli og appelsínuguli liturinn í ávöxtum og grænmeti), E vítamín, curcumin í túrmerik rótinni, capsaicin í rauðu chili, grænt te, dökkt súkkulaði og rauðvín. Jafnvel kaffibollinn þinn inniheldur andoxara sem geta hjálpað til.
Tryptophan og B vítamín
Flest lyf gegn þunglyndi miða að því að auka magn serotonins í heilanum. Serotonin vinnum við úr aminosýrunni tryptophan en hana fáum við úr prótínríkum afurðum s.s. osti, mjólkurvörum, kjöti, fiski, eggjum, sesamfræjum, möndlum, súkkulaði og höfrum.
B 6 og B 12 vítamín geta hjálpað til við að halda magni serotonin hærra en að auki getur B 6 verkað bólguminnkandi og því gleðigjafi á tvennan hátt.
„Hver kannast ekki líka við að matur bragðist betur í góðum félagsskap góðra vina og fjölskyldu?“
Matur er ekki bara til að seðja okkur og gefa okkur næringarefni. Við tengjum líka tilfinningar við neyslu matar. Við bæði verðlaunum okkur og huggum með mat.
Matur er yfirleitt í aðalhlutverki á stóru stundum lífsins svo sem afmælum, brúðkaupum og öðrum mikilvægum stundum. Hver kannast ekki líka við að matur bragðist betur í góðum félagsskap góðra vina og fjölskyldu? Þannig getur matur veitt okkur hamingju bæði beint og óbeint í gegnum tilfinningar og efnafræði. Kaffibollinn minn á morgnana er til dæmis bæði vinur minn, gæðastund og fullur af andoxunarefnum!
Það er fjölmargt annað sem hefur áhrif á hamingju okkar og er hægt að sýna fram á með rannsóknum. Það er til dæmis orðið viðurkennt að útivera og náttúra hefur það góð áhrif á okkur að einungis það að sjá græn lauf bærast í vindi eykur gleði okkar og hefur það jákvæð áhrif á heilsu að sjúklingar sem sjá gróður á hverjum degi útskrifast fyrr af sjúkrahúsum en þeir sem njóta ekki gróðursins.
Það er alveg ábyggilega hægt að taka ákvörðun um að vera hamingjusamur. Það er í það minnsta hægt að venja sig á hamingjuríkara líf. Það kann að kosta smá þjálfun. Rétt eins og það þarf þjálfun til að komast í gott líkamlegt form.
Við veljum nefnilega ekki öll þau verkefni sem lífið færir okkur en það er fullkomlega á okkar valdi að velja viðbrögð okkar og viðhorf.
Vendu þig á kærleik, gleði og hamingju. Það margborgar sig og er bráðsmitandi!