Litlu mátti muna að illa færi þegar Martin Babčan féll í sjó og fór úr axlarlið síðastliðinn mánudag. Babčan hafði verið við leik á fallhlífabretti utan við Eyvíkurfjöru, þegar fallhlífin hans gaf sig.
„Ég hefði ég átt að snúa við en mig langaði bara að fara eina ferð í viðbót“
„Aðstæðurnar voru fullkomnar…fyrir utan vindáttina… Í byrjun var kraftur vindsins fullkominn. Ég gat stokkið á öldurnar á fullum hraða. Ég varð mjög spenntur og þegar maður verður spenntur þá á maður það til að verða kærulaus. Ég fann að vindurinn var að aukast og vindáttin að breytast. Þarna hefði ég átt að snúa við en mig langaði bara að fara eina ferð í viðbót.“
Á þessum tímapunkti var Babčan á fullri ferð, u.þ.b. 200 metrum frá landi en það sem hann vissi ekki var að fallhlífin hans hafi eyðilagst árið áður.
„Fallhlífin rifnaði og féll í sjóinn á örfáum sekúndum. Ég vissi að ég væri í djúpum skít. Það eru til sjálfsbjargarráð en þau virka ekki ef fallhlífin rifnar algerlega eins og mín gerði…Ég var skelfingu lostinn. Ég reyndi að synda aftur í land en það var erfitt að synda á móti vindinum. Það dimmdi hratt, vindurinn styrktist og öldurnar urðu stærri. Mér fannst ég synda í stað og ég varð að stoppa þegar ég fékk krampa í fótinn. Á þessum tímapunkti var orðið alveg dimmt úti.“
Við aðstæður sem þessar, þar sem hætta er á ofkælingu, er mikilvægt að vera fljótur að hugsa.
„Ég hafði tvo valkosti: reyna að synda áfram eða bíða eftir hjálp. Fingurnir og tærnar á mér voru að frjósa hægt og rólega svo ég ákvað að fara aftur að drekanum mínum og bíða hjálpar. Það var mikið auðveldara að synda með vindi svo ég var fljótur að komast aftur að drekanum. Því miður fór ég úr axlarlið við sundið. Þrátt fyrir að vera orðinn mjög þreyttur og kaldur þá ég reyndi að vera rólegur. Ég naut þess að horfa á stjörnurnar á himninum meðan ég beið eftir aðstoð.“
Um átta leytið sama kvöld fékk lögreglan á Húsavík tilkynningu um að maður væri í sjónum í Eyvík, um fimm kílómetra norður af Húsavík. Lögreglu- og sjúkraflutningamenn voru sendir á staðinn ásamt því að björgunarsveitin Garðar var kölluð út. Björgunarbáturinn Jón Kjartansson fór einnig á slysstað frá Húsavík og 27 mínútum eftir að útkallið barst hafði Babčan verið bjargað um borð, heilum á húfi þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
„Mér var svo létt og ég var fullur þakklætis“
„Allt í einu sá ég blá ljós frá lögreglu- og sjúkrabíl í fjörunni. Mér var mjög létt en ég vissi að ég þyrfti bát. Ég reyndi aftur að synda í land en ég fann varla fyrir fingrum og tám. Loksins sá ég bát. Það var björgunarsveitin. Þeir fundu mig á tíu mínútum og einn björgunarsveitarmaðurinn kippti meira að segja öxlinni á mér aftur í lið. Mér var svo létt og ég var fullur þakklætis. Ég passa mig klárlega betur næst.“
Myndir: Aleš Mucha og Andrej Mesiar