Það eru til mörg hundruð ólíkar gönguleiðir á Íslandi en fyrir óvana getur verið erfitt að henda reiður á hvar sé gott að byrja. En það er til lausn.
Gönguappið Wapp – Walking app var gefið út í nóvember árið 2015 fyrir Android og Iphone. Í upphafi var hægt að hlaða inn tíu gönguleiðum og hefur smám saman bæst við safnið síðan þá. Gönguleiðirnar eru nú farnar að nálgast þriðja hundraðið eða 249. Lesefnið og myndirnar sem fylgja þessum leiðum myndi duga til þess að fylla tólf bækur, sem allar yrðu yfir 200 bls að lengd.
Stysta leiðin í Wappinu er 64 m og er leiðin frá bílastæði að Kattarauga í Vatnsdal og til baka en sú lengsta er rúmir 38,2 km og það er gönguleið á milli átta heiðarbýla á Jökuldalsheiðinni. Reyndar er lengri leið, Laugavegurinn, í Wappinu, en er skipt í fjórar dagleiðir þar, enda 55 km á lengd.
Einar Skúlason, göngugarpur og forsvarsmaður gönguhópsins Vesens og vergangs er höfundur appsins. „Ég fer flestar leiðirnar sjálfur en ekki allar. Ég hef til dæmis fengið margar leiðir frá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, þannig að nú eru 25 af 29 perlum Fljótsdalshéraðs í Wappinu. Síðustu perlurnar koma vonandi inn í sumar,“ segir Einar.
Vinsælustu leiðirnar í Wappinu eru þær sem eru ókeypis. Þar eru til dæmis mjög vinsælar leiðir í boði Garðabæjar, Wow air hefur boðið upp á vinsæla leið í miðbæ Reykjavíkur, Ferðafélag Íslands býður upp á tvær leiðir í Esjunni og Laugaveginn og bæði Reykjanes Geopark og Katla Geopark hafa boðið upp á vinsælar leiðir á sínum svæðum. UMFÍ býður upp á leiðir í öllum landshlutum og Icewear á Suðurlandi svo eitthvað sé nefnt.
Wappið kemur upp úr starfsemi gönguklúbbsins Vesens og vergangs, sem var stofnaður árið 2011 og er með um tvöhundruð göngur á ári enda yfir tólf þúsund manns sem hafa gengið í hópinn.