Glæsileg göngu- og gleðivika stendur nú yfir í Fjarðabyggð. Boðið er uppá göngur með fararstjórn alla daga fram til 30. júní en vikan hófst um liðna helgi. Verkefnið heitir Á fætur Fjarðabyggð – gönguvikan og má finna dagskránna undir þessu heiti á Facebook.
Í dag (27.júní) klukkan 18:00 er skemmtileg fjölskyldu ganga inn Seldal á Norðfirði, þar sem gengið er inn með ánni og fossar og gilið skoðað. Mæting er við eyðibýlið Seldal. Í kvöld býður Síldarvinnslan svo til kvöldvöku í Jónshúsi í Seldal sem hefst klukkan 8.
Á föstudaginn, klukkan 14:00, verður krakkaganga á Sellátratind en hún er auðveld og skemmtileg og allir fá smá glaðning á toppnum. Veðurspáin lítur vel út fyrir daginn.
Vikan er skipulögð í samstarfi Ferðafélags Fjarðamanna og Ferðaþjónustunnar Mjóeyri.