Inga Fanney Sigurðardóttir sérhæfir sig í hlaupaferðamennsku á norðlægum slóðum, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Hún segir hlaupaferðamennsku snúast um það að ferðast hlaupandi. Sameina mikla hreyfingu við útivist og upplifa nýja staði í leiðinni.  

„Ég hafði alltaf verið mikið í útivist og fjallgöngum en þegar ég varð móðir hafði ég ekki lengur jafn mikinn tíma fyrir lengri fjallgöngur og uppgötvaði hlaup. Á þeim tíma bjuggum við í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum sem er auðvitað alger stígaparadís og það varð minn leikvöllur. Ég hef eiginlega alltaf hlaupið á stígum, nema kannski yfir háveturinn, þá reyni ég að sætta mig við malbikið.

Inga Fanney

Fljótlega eftir að ég byrjaði að hlaupa stofnaði ég fyrsta fyrirtækið mitt, sem sérhæfir sig í hlaupaferðamennsku. En þá var ég stödd í Jökulsárgljúfrum, ekki vinnu að fá og ég hafði starfað sem leiðsögumaður og í ferðaþjónustu frá því ég var tvítug.“

Inga Fanney byrjaði því að hlaupa í sínu nánasta umhverfi í Jökulsárgljúfrum, Ásbyrgi, Kelduhverfi og Öxarfirði. „Síðan fór ég að færa mig lengra og lengra, en hef líklega mest verið að hlaupa á hálendi Íslands, Fjallabaki og Þórsmörk, Hornströndum, Víknaslóðum og Öræfasveit. Fljótlega fór ég að fá fyrirspurnir frá Grænlandi og Færeyjum um samstarf og hef því líka hlaupið nokkuð á austurströnd Grænlands og Færeyjum.“

Inga Fanney segir Grænlandshlaupin ekki henta öðrum en mjög reyndum fjallahlaupurum. „Ég hef bara hlaupið á austurströnd Grænlands, Ammassalik eyju og á meginlandinu norðan og austan við hana, semsagt Tinitequilaq, meðfram og útfrá Sermilik firðinum, Kuummiit og Isertoq svæðinu. Það er mjög tæknilegt undirlendi og fjölbreytt. Það er lítið um stíga og auðvitað ekkert um malbik. Það er mikið um fjöll, fjallgarða, vötn og jökla. Hlaup á Grænlandi eru eiginlega meira fjallahlaup en eiginleg utanvegahlaup. Það er erfitt en yndislegt. Grænland er ótrúlega fallegt land.“

„Grænland er ótrúlega fallegt land.“

Inga Fanney segir nauðsynlegt að hlaupa með riffil eða haglabyssu á austurströnd Grænlands. Þarna eru ísbirnir og þeir hlaupa hratt. Hún segir það venjast að vera með byssuna á bakinu þó það skilji eftir nuddsár í nokkrar vikur. Hún segir mestmegnis erlenda hlaupara vera samferðarmenn hennar. Mest frá Bandaríkjunum og Kanada en líka frá Ástralíu og Evrópu.

Inga Fanney hefur líka unnið með fyrirtækjum og ljósmyndurum í að kynna vörumerki í utanvegahlaupum. Og skemmtileg verkefni hafa orðið til hér heima. „Í samvinnu við Sigurð Jónsson skútumeistara vestur á Ísafirði höfum við búið til ferðir sem snúast um að hlaupa og sigla. Við siglum frá Ísafirði yfir í Jökulfirði og hlaupum þaðan yfir á Hornstrandir og milli fjarða, hittum þar skútuna hvar við gistum, borðum og höldum okkar heimili í viku. Þetta eru orðnar nokkuð vinsælar ferðir, enda mjög skemmtilegur lífsstíll, að hlaupa á daginn og búa í skútu, í engu síma- né internetsambandi í friðlandi Hornstranda.“

Framundan eru spennandi verkefni. „Þó nokkur hlaupaævintýri eru á dagskrá, t.d. Hlaupaskútuferðir á Hornströndum, Grænland, fjallatoppaferð á hálendinu og fleira. Ég hef lítið sem ekkert verið í keppnishlaupum svo það eru engin sérstök hlaup á bucket listanum, mikið frekar ákveðin svæði sem mig langar til að upplifa hlaupandi. Ég hef séð um að stýra hlaupum og held eitthvað áfram í því mikið frekar en að keppa. Ég tek þátt í stöku keppnum inná milli til að halda mér í formi milli ferða og svo er bara svo gaman að finna kraftinn frá fjöldanum í þessum hlaupum. En það eru auðvitað ýmis gæluverkefni sem ég vonandi kemst í líka núna í sumar eins og til dæmis að hlaupa frá Seyðisfirði yfir á Borgarfjörð eystri. Ég hvet alla áhugasama um að taka þátt í svoleiðis vitleysu að hafa samband á facebook.“