The Rich Roll Podcast

Hér eru sagðar sögur og viðtöl frá járnmanninum Rich Roll sem breytti lífi sínu við fertugt þegar hann komst ekki upp stiga án erfiðleika. Á undanförnum áratug hefur hann tekið þátt í og lokið tugum keppna í járnkalli og er almennt talinn einn af þeim mönnum í heiminum sem eru hvað best á sig komnir líkamlega. Minimalismi, núvitund og sjálfbær lífstíll er endurtekið þema hjá þessum vinsæla Hlaðvarpara.

The Dirtbag Diaries

Þessar dagbækur eiga sér allnokkuð langa sögu í hlaðvarpsheimum enda stofnað til þeirra fyrir um 10 árum. Hér eru sagðar sögur tengdar allskyns útivist; allt frá fjallamennsku til vegaflakks. Fitz Cahall, stofnandi og eigandi, segir sögur afreksfólks en inná milli eru þættir þar sem fólk segir sína sögu. Margt mjög áhugavert á ferðinni þarna, vel skrifað og vel flutt. Hlaðvarp eins og það gerist best.

 

Enormocast

Hér fæst innsýn inní veröld klettaklifrara sem vissulega eru sérstakur þjóðflokkur. Fólk sem fær lífsfyllingu með því að hanga á fingrum og tám í mikill hæð er þarna í aðalhlutverki. Það er ákveðin hippablær nægjusemi og einfaldleika yfir lífstíl þessara einstaklinga. Þekktustu klifrarar heims eru eins og heimilsgestir hjá stjórnandanum Chris Kalous sem greinilega er vel að sér í klifuríþróttinni.

 

The first 40 miles

Þarna eru mjög fínar upplýsingar fyrir fólk sem er að byrja í útivist og vill fara leggja fyrir sig lengri ferðir. Hvernig á til dæmis að velja sér svefnpoka, hvernig nær maður góðum svefni í útilegunni og hvernig á að pakka í léttan göngubakpoka. Inná milli eru pistlar sem koma að litlum notum á Íslandi eins og hvernig eigi að forðast að láta grábjörn kremja sig og naga til ólífis. Sambærilegt efni á Íslandi gæti fjallað um hvernig eigi að forðast að láta íslenska heimskautarefinn éta á sér andlitið í svefni.

 

UltrarunnerPodcast

Mjöglanghlauparar heimsins sameinast þarna og segja sögur af því hvernig þeir komu sér á þann stað að geta hlaupið marga tugi eða jafnvel hundruð kílómetra í einu. Þetta er líka áhugavert efni fyrir venjulega hlaupara. Græjur í hlaup eru prófaðar og gefin ráð um þjálfun og næringu á hlaupum.