Að tala um sjálfan sig vekur samskonar ánægju hjá fólki og kynlíf og matur. Þetta sýna lærðar rannsóknir. Þegar maður klárar miklar áskoranir vill maður að sjálfsögðu segja frá þeim. En hvernig er best að monta sig án þess að vera barinn í húsasundi í kjölfarið? 

Guðmundur Steingrímsson skrifar.

Það er athyglisvert að orðið mont skuli vera skrifað eins og orðið mont í Mont Blanc og fleiri fjöllum. Að monta sig er jú að gera sig stærri og hærri. Að gera sig að fjalli.

„Ef fólk ætlar að monta sig, þá verður það að monta sig beint. Ekki fela það.“

Það ríkir samkomulag um það í montfræðunum að aldrei megi beita svokölluðu “humblebrag” — eða auðmýktarmonti — undir neinum kringumstæðum.  Grínarinn Harris Wittels, skapari gamanþáttanna Parks and Recreation, fann upp þetta orð. Hann fór að taka eftir því á samfélagsmiðlum að margt fólk var orðið nokkuð lunkið í því að læða inn monti á eftir lýsingu á einhverju mjög leiðinlegu sem hafði komið fyrir það. Fólk gerði þannig lítið úr sjálfu sér með það að markmiði að gera mikið úr sjálfu sér. Hér eru dæmi:

  • Glatað! Flugvélinni seinkað um sólarhring og ég á leiðinni heim frá Bostonmaraþoninu.
  • Djöfuls, ég braut nögl þegar ég var að setja gönguskíðin á toppinn eftir 50k Fossavatnsgönguna.
  • Dísess. Ég át gjörsamlega yfir mig hérna í kökuhlaðborðinu eftir Járnkarlinn í Hvalfirði.

Semsagt: Svona mont er algjörlega bannað. Ef fólk ætlar að monta sig, þá verður það að monta sig beint. Ekki fela það.

App eins og Strava eru guðsgjöf fyrir þá sem vilja monta sig og halda vinsældum á sama tíma. Forritið er byggt upp eins og samfélagsmiðill. Maður fylgist með fólki og fólk fylgist með manni. Afrekin tínast inn, með hæðargröfum, kílómetrafjölda, hraða og hvaðeina. Maður getur sett hógværa yfirskrift á afrekið eins og: Skrapp út að skokka í morgun. Eða: Léttur sprettur í lauginni.  Og fólk gefur manni kúdos. (Fólk sem gefur manni ekki kúdos getur átt sig!)

Afrekið er að sjálfsögðu stravað undir því yfirskyni að maður hafi svo rosalegan áhuga á því að sjá hver hraðinn á manni var eða hversu langa vegalengd maður fór, en hið raunverulega markmið appsins er auðvitað bara það að gera manni kleift að monta sig.

Fátt veldur fólki jafnmiklum vonbrigðum og þegar í ljós kemur að það gleymdi að kveikja á Strava. Ef afrekið er ekki á Strava, þá gerðist það ekki. Maður verður að strava hlutina ofan í fólk.

„Hafðu verðlaunapeninginn á skrifborðinu, samt ekki á of áberandi stað.“

Aðrar klassískar leiðir til að monta sig eru meðal annars þessar:

  • Semdu við vin þinn um að segja frá því, að þér viðstaddri, að þú hafir aldeilis verið að taka á því um helgina. Þetta gefur þér færi á að roðna pínulítið, en samt segja frá því stuttlega að þetta hafi jú verið alveg rosalegt.
  • Hafðu verðlaunapeninginn á skrifborðinu, samt ekki á of áberandi stað.
  • Komdu með barnið þitt í vinnuna og láttu það segja mjög hátt yfir vinnustaðinn að mamma/pabbi hafi verið að keppa um helgina. Þaggaðu svo niður í því.
  • Gerðu þér upp harðsperrur. Jafnvel smá óeðlilegt göngulag, þó ekki of mikið, getur leitt til umræðu um afrekið.
  • Vertu mjög útitekinn. Allt svoleiðis vekur athygli og er hægt að leiða mjög lipurlega inn í umræðu um það hvað þú varst að gera.
  • Og svo er það auðvitað Facebook: Best er að setja færslu þar inn beint eftir að afrekinu er lokið, með mynd. Eftir hvert afrek er alltaf ákveðið langur montgluggi til staðar sem öllum ber að nýta sér, þó ekki nema af skyldu við foreldra, ættingja og vini (og til þess að pirra óvini).  Margir faktorar, eins og tíðni afreka, hefur áhrif á það hversu montglugginn er stór. Mörg afrek þýðir að svigrúm til monts er minna hverju sinni. Maður má ekki fara í taugarnar á venjulegu fólki.

Annað er alveg bannað: Það má alls ekki, undir neinum kringumstæðum, monta sig af því að maður hafi skráð sig í eitthvað. Þetta er freistandi. Með þessu móti getur maður tekið út hrósið fyrirfram, án þess að hafa gert nokkurn skapaðan hlut.

Maður setur semsagt ekki á Facebook að maður hafi skráð sig í Laugavegshlaupið og tekur svo við fullt af lækum í kjölfarið.

Slíkt framferði er kannski löglegt, en það er fullkomlega siðlaust. Það hljóta allir að sjá.