Nærandi núvitundar kajakferð til Suður-Noregs þar sem ferðast er á milli eyja og skerja. Svæðið er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð og er hluti þess friðaður. Yfir öllu liggur andi gamals tíma, ró og friður. Fátt er eins viðeigandi og að ferðast á kajak um þetta svæði, renna hljóðlaust yfir hafflötinn og njóta nálægðarinnar við náttúruna. 

Dagleiðirnar eru stuttar og róið er innan skerjagarðsins í vari fyrir öldum úthafsins. Stoppað er oft til að fara í land, rétta úr fótunum, ganga og skoða sig um, ásamt því að skella sér í hressandi sjósund. 

Ferðin stendur í sex daga og róið er á kajak í fjóra daga en fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Gist er í tvær nætur í Osló, þ.e. fyrir og eftir ferð og þrjár nætur í skálum í eigu norska ferðafélagsins. Skálarnir standa allir á draumfögrum og afskekktum eyjum sem aðeins eru aðgengilegar sjóleiðina. Fyrirtaks aðstaða og uppábúin rúm eru í öllum skálunum en ætlast er til að fólk noti litla skálapoka/silkipoka.

Hver og einn flytur sinn eigin farangur í kajaknum á milli gistiskálanna. Hópurinn flytur líka með sér mat og eldar saman í skálunum en að auki verður stoppað á kaffihúsum og veitingastöðum sem finna má á sumum þeirra eyja sem heimsóttar verða. 

Hámarksfjöldi í ferðina er 12. Ferðin hentar ekki byrjendum í kajakróðri en við getum haft milligöngu um fornámskeið.

———————

Dagur 1. Sunnudagur 28. ágúst

Þátttakendur koma sér á eigin vegum til Oslóar. Hópurinn hittist seinnipart dagsins til að fara yfir ferðina framundan og skipuleggja sig. Gist er á hóteli, skammt frá aðallestarstöðinni. 

Dagur 2. Mánudagur 29. ágúst

Vaknað snemma og haldið með rútu til Tvedestrand sem er afar fallegt smáþorp með fjölda kaffi- og veitingahúsa. Þar gefst tækifæri til að borða hádegismat saman og kaupa í matinn fyrir næstu daga. Að svo búnu er haldið áfram stutta leið að öðru smáþorpi þar sem kajakarnir bíða. Farangur er lestaður í bátana og svo er haldið af stað. Dagleiðin er stutt, eða um 2 km út í eyju þar sem aðeins standa tvö hús: Stór og fallegur viti og svo skálinn sem við gistum í. Við komum okkur fyrir, könnum eyjuna og borðum saman áður en lagst er til hvílu.

Dagur 3. Þriðjudagur 30. ágúst

Þegar búið er að borða morgunmat og pakka saman er haldið af stað í róður dagsins. Leiðin liggur m.a. meðfram tveimur stórum eyjum með fjölda sumarhúsa en líka óteljandi smáeyjum og skerjum, þar sem hægt er að hoppa í land og fara í sólbað og sjósund. Dagurinn snýst um að taka því rólega og anda að sér andrúmslofti svæðisins. Hópurinn borðar hádegismat á veitingstað eða kaffihúsi á leiðinni. Dagleiðin er 12-14 km, eftir því hvaða leið verður fyrir valinu. Seinnipartinn er svo komið á lítinn hólma sem verður næturstaðurinn. Eina mannvirkið á þessum hólma er lítill en afar huggulegur skáli með stórri verönd þar sem hægt er að njóta kvöldsólarinnar. 

Dagur 4. Miðvikudagur 31. ágúst 

Nú er haldið um þröng sund og lygna firði, um 6 km leið, að eyju sem er töluvert stærri en síðustu áfangastaðir. Hér er gist í afar fallegum gömlum herragarði sem er friðaður eins og öll húsin í eyjunni. Sumir vilja kannski bara slaka á og taka því rólega í og við húsið á meðan aðrir vilja róa meira, t.d. hringinn í kringum eyjuna sem reyndar er líka gaman að skoða fótgangandi. 

Dagur 5. Fimmtudagur 1. september

Lagt er snemma af stað og róið í hlykkjum og snúningum um sker og eyjar, um 9 km leið að smábátahöfn þar sem við segjum skilið við kajakana. Að svo búnu tökum við strætó aftur í þorpið Tvedestrand þar sem ferðin hófst. Þar gefst tækifæri til að borða hádegismat áður en haldið er til Oslóar með rútu. Gist er á hóteli skammt frá aðallestarstöðinni. 

Dagur 6. Föstudagur 2. september

Ferðinni lýkur og þátttakendur halda á eigin vegum heim til Íslands eða bara hvert á land sem er 🙂

——————

Innifalið í ferðinni, sem kostar 172 þúsund, er gisting í fimm nætur (tvær nætur á hóteli í Osló og þrjár í skálum), rútuferðir frá Osló til Tvedestrand og til baka, kajakleiga með tilheyrandi búnaði og fararstjórn. Athugið að flug til og frá Noregi er ekki innifalið í verðinu.

Staðfestingargjald, 40 þúsund, leggist inn á reikning: kt. 6601840669, 0321  26 184 – Styrkur ehf / Ferðaskrifstofan Vertu úti