Karen Kjartansdóttir skrifar.

Hún hét Lucy Walker og var fyrst kvenna til að klífa Matterhorn. Það gerði hún 1871 í síðu pilsi, sex árum eftir að fyrstu karlarnir klifu fjallið í mikilli svaðilför en fjórir af sjö fórust í þeirri ferð. Ætla má að nokkuð þor og áræðni hafi þurft fyrir konu að fara í slíka för en hvað veit ég. Við myndina sem ég sá af henni í horni á svissnesku safni voru níu línur. Þrjár og hálf lína var um hana en hinar fimm línurnar voru um karlmennina sem fóru með henni. Mig langaði að vita meira um þessa konu en á stóru safni sem aðeins var helgað ferðum upp Matterhorn gat ég ekki fundið meiri upplýsingar.

„Við gerðum dauðaleit að konum á safninu og í afskektu horni fundum við það sem við vorum að leita að. Mynd af fyrstu konunni til að klífa fjallið, það gerði hún pilsklædd sex árum eftir að fyrstu karlarnir gerðu það.“

Í vor barst mér lítil bók með lista af spennandi fjallaferðum. Ég lagðist yfir sendinguna og merkti skilmerkilega við þær ferðir sem mig langaði til að fara í. Ég var langt komin með bókina þegar ég áttaði mig á því að ég hafði eingöngu merkt við ferðir sem höfðu leiðsögumann af karlkyni. Þetta fannst mér skrítið. Einhverra hluta vegna virtist ég upplifa ferðir með konum í fararbroddi sem heldur léttar og óspennandi. Mér þótti þessi uppgötvun á ómeðvituðum hugsunum mínum, hugsunum sem í raun eru bara leiftur í undirmeðvitundinni en hafa samt áhrif á ákvarðanatöku, áhugaverð og velti því fyrir mér hvesu oft þessi leiftur stjórna ákvörðunum fólks og annarra í kringum mig á hinum ýmsu sviðum. Einhver gæti nú haldið því fram að þessi leiftur væru bara endurspeglun á reynslu minni. Svona væru bara konur. Annar gæti haldið því fram að leiftrin byggðu á staðalmyndum sem ég ætti eftir að átta mig á að væru ósannar. En reynsluheimur minn af ferðum undir stjórn kvenna byggir á hlaupum með Elísabetu Margeirsdóttur, mesta ofurhlaupara Íslandssögunnar, Vilborgu Örnu Gissurardóttur, sem meðal annars hefur farið á hæsta tind Everest, þverað Grænlandsjökul og gengið á Suðurpólinn, og svo Brynhildi Ólafsdóttur, sem stýrt hefur FÍ landvættum og staðið fyrir æsilegustu ævintýraferðum sem ég hef farið í. Ferðir með þessum konum byggja nær eingöngu upp reynslu mína á útivist. Ég á enga minningu þar sem ég hef hugsað með mér að konur hlífi sér og engar minningar af körlum sem aldrei gefast upp.

Ég sem tel mig jafnréttissinnaða og með reynslu af sterkum konum virðist samt sem áður uppfull af ranghugmyndum sem eiga ekkert skylt við veruleikann eða reynslu mína.

„Það bara sá karlinn miklu betur en konuna – alveg óvart. Þannig er það svo oft.“

Þessar vangaveltur rifjuðust svo upp fyrir mér þegar ég sá umræðu á Facebook-síðu hjá fyrrnefndri Brynhildi Ólafsdóttur. Umræðurnar spunnust við hugleiðingar hennar um ástæður þess að tveimur fjölmiðlamönnum fannst nærtækra að ræða við eiginmann hennar um hættur í Kirkjufelli við Grundarfjörð en að ræða við hana. Einhver gæti sagt að það sé vegna þess að Róbert Marshall, eiginmaður hennar, er mætur maður, með mikla þekkingu á útvist og reynslu af samskiptum við fjölmiðla. En það sama gildir um hana  — auk þess sem hún hefur það fram yfir eiginmanninn í þessum efnum að vera frá Grundafirði. Gantaðist hún með það að mögulega yrði hringt í hana ef rætt yrði um Heimaklett í heimabæ eiginmannsins. Brast þá á með grenji og góli fólks sem var sannfært um að þessi athugasemd væri til marks um að kerlingar væru sívælandi, hæfasti aðilinn yrði að fá að uppskera og kynjapólitík mætti ekki þvælast fyrir því. Ég blandaði mér inn í umræðuna en þó með það á bak við eyrað að líklega væri með öllu ómögulegt að benda fólki sem hafnaði öllum hugmyndum um ósanngjarnt kynjakerfi á blinduna sem það skapar. Fjölmiðlafólkið sem Brynhildur nefndi var henni kunnugt og vissi vel að hún væri góður viðmælandi og frá Grundarfirði. Það var ekki uppfullt af kvenfyrirlitningu, karlaðdáun eða vondum fyrirtælunum þegar það ákvað að heyra frekar í manninum hennar. Það bara sá karlinn miklu betur en konuna – alveg óvart. Þannig er það svo oft.

Lucy Walker með mönnunum.

Þessi veruleiki opinberaðist svo algjörlega fyrir mér þegar ég var stödd í Sviss í haust, þessu fagra en íhaldssama landi sem veitti konum ekki fullan kosningarétt fyrr en árið 1989, á safni sem helgað var fjallgöngum upp Matterhorn. Eftir að hafa gengið um fleiri fermetra glæsilegra húsakynna safnsins og ekki aðeins fræðst um hinar ýmsu sem klifið höfðu fjallið í tímans rás, heldur líka þróun á skófatnaði, sögu klerka á svæðinu, staðbundna ostagerð og myndlist tengda fjallinu nefndi vinkona mín það við mig að hvergi væri minnst á konur á safninu. Þessu hafði ég ekki kveikt á, við konur erum nefnilega alveg jafn vanar því og karlar að ekki sé fjallað um konur nema í sérstökum átaksverkefnum sem þá þurfa helst að heita konur og eitthvað málefni. Í þessu tilfelli hefði það þurft að vera konur og fjöll eða eitthvað álíka. (Reyndar erum við margar jafnvel blindari en karlar því við viljum svo innilega forðast að vera ásakaðar um væl og/eða vera sakaðar um að vilja komst áfram á öðru en eigin verðleikum, eins og iðulega gerist þegar bent er á að gengið sé framhjá konum.)

Við gerðum dauðaleit að konum á safninu og í afskektu horni fundum við það sem við vorum að leita að. Mynd af fyrstu konunni til að klífa fjallið, það gerði hún pilsklædd sex árum eftir að fyrstu karlarnir gerðu það. Hún hét Lucy Walker og var fyrst kvenna til að klífa Matterhorn.

Væntanlega ætlaði engin að sýna kvenfyrirlitingu eða karldýrkun, ekki frekar en ég þegar ég merkti við allar ferðirnar með körlum í fararbroddi. Blindan sem kynjakerfið okkar skapar verður seint upprætt en það minnsta sem við getum gert er að viðurkenna að hún sé til staðar.