Mágur minn grobbar sig af því að vera svokölluð espressotýpa þegar kemur að útivist. Það er víst svona grjóthart lið sem er alltaf að gera eitthvað sem í besta falli telst glapræði og sjálfspíning. Honum finnst ég hinsvegar vera óttaleg Irish Coffee týpa.
Þórhildur Ólafsdóttir skrifar.
Fyrst móðgaðist ég við þessar karakterslýsingar. En svo komst ég að því að ég vil frekar vera drykkur sem inniheldur sykur, rjóma og súkkulaðispæni en malbiksvökvi sem gerir fátt annað en ræsa þarmana.
Ég er nefnilega alvöru afreksmanneskja í útivist. Hef hinsvegar, ólíkt öðrum, gortað mig allt of lítið af því. En nú verður bætt úr því.
Sko. Ég tilheyri dásamlegum gönguhópi sem þrætt hefur Hornstrandir um árabil. Í aðdraganda fyrstu ferðarinnar kynntum við okkur staðhætti vel, meðal annars með fræðandi bókum Páls Ásgeirs Ásgeirssonar. Við áttuðum okkur hins vegar fljótt á því að eins hjálplegar og leiðalýsingar hans voru hentuðu þær engan veginn okkar hópi. Við værum ekki að þramma 25 kílómetra dagleið til að fá bollasúpu og hrökkbrauð í kvöldmat og skella okkur svo í fjallgöngu fyrir svefninn.
Allt alvöru útvistarfólk þarf að takast á við áskoranir. Þarna stóðum við frammi fyrir þeirri mest aðkallandi í íslenskri fjallamennsku: Hvernig ganga á um afskekkt svæði í marga daga með allt á bakinu en njóta samt lífsins lystisemda. Eins og matar. Og hvíldar.
„Þeir sem bera lúxusinn njóta hans.“
Nú er mikið lagt upp úr því að hafa bakpokana sem léttasta á göngum. En fjandakornið, þótt léttar séu bollasúpur eru þær móðgun við nútímann. Gott ef ekki mannkynssöguna. Erum við virkilega búin að finna upp og hanna meistaralega útfærð og ofurlétt göngutjöld til þess að húka svo í þeim slafrandi frostþurrkað duft? Þetta er dýrasti fermetri landsins og þú ætlar bara að fá þér smá rúsínur?!
Nú er komið að afrekssögu minni:
Uppskrift að kvöldmat fyrir fólk sem hefur gengið í hægðum sínum milli fjalla og fjarða
(og sleppir þessari fjárans kvöldfjallgöngu):
- Carbonara pastapakki (Ég nota Toro en Knorr dugar líka)
- Hálfur piparostur (gullostur passar vel í góðæri)
- Góð niðursneidd kryddpylsa (hafðu fyrir því að finna þá bestu í bænum, farðu í sérvöruverslanir í úthverfum, segðu svo söguna)
- Mulið Doritossnakk (ekki í upprunalegu umbúðunum, setjið skammt í ziplock poka, þetta mylur sig svo sjálft á leiðinni)
- Rauð paprika (létt fersk og geymist vel, skorin í helminga í ferðalagið, svo söxuð)
Þessi uppskrift fullkomnaðist á náttstað í Lónafirði fyrir nokkrum árum. Ég gleymi þessu aldrei, það var kvöldkyrrð, ég hafði gengið allan daginn, mjög hægt. En þrátt fyrir rólegheitin komst ég í þennan eyðifjörð, tók með mér og sameinaði þar það besta úr norskri, ítalskri og bandarískri matarhefð.
Eins og allt alvöru afreksfólk stefni ég sífellt lengra. Nýlega varð ég mér út um svona lítinn drykkjarpoka sem langhlauparar hafa gjarnan í vasanum. Fyrir næstu Strandagöngu ætla ég að setja í hann eitthvað gott rauðvín sem fer vel með fjallapastanu góða. (Frá Toskana líklega. Bragðprófanir og æfingar standa enn yfir.)
Þegar allt kemur til alls er ekkert mál að stunda einhverja harðræðis útivist. Svelta og kveljast á fjöllum? Pff, það hefur verið gert í aldaraðir! Það að lifa og njóta í útivist er það sem krefst alvöru þrautseigju, útsjónarsemi og óttaleysis. Enda búið að toppa flesta tinda og ganga allar leiðirnar á öllum hraða á allskonar máta. Það er hins vegar ekki búið að finna upp ætt barnaisesósuduft. Og hvergi eru seldar handhægar og smáar ferðaumbúðir fyrir eina væna skvettu af truffluolíu.
Munum svo að þeir sem bera lúxusinn njóta hans. Ekki gefa esprossoliðinu með af nestinu ykkar.