Það var ljóst strax uppi við Dettifoss að þetta yrði heitt hlaup. Mjög heitt. Það spáði allt að 18 stiga hita niðri í Ásbyrgi á laugardag þegar keppendur færu að koma í mark en Dettifoss liggur hærra og því yfirleitt svalara þar. Ekki í þetta skipti. Það hreyfði ekki vind.

Róbert Marshall skrifar. 

Þetta er í fjórða skiptið sem ég tek þátt í Jökulsárhlaupinu þannig að þetta orðið að mjög kunnuglegu landslagi fyrir mig. Ég hef líka farið um gljúfrin nokkrum sinnum sem leiðsögumaður á göngu þannig að ég þekki þarna næstum hverja þúfu með nafni.

Leikáætlunin var þessi. Fara rólega af stað frá fossinum og klára malbikskaflann, fyrstu 2 kílómetrana, án þess að verða móður. Láta síðan skrokkinn ráða för niður í Ásbyrgi en það er yfirleitt í pace /hraða 5.30 mínútur með kílómetrann sem er minn eðlislægi hlaupahraði. Ganga upp allan bratta og súpa úr vatnsbrúsanum á meðan. Taka þrjú orkugel og drekka á öllum drykkjarstöðvum. Klára á um það bil þremur og hálfum tíma sem er um korteri lakara en minn besti tími.

Allt fór eftir áætlun fyrstu 15 kílómetrana. Flaug að vísu einu sinni á hausinn eftir að hafa hrópað að mínu fólki í Landvættunum að passa tærnar. Rak svo sjálfur fótinn í stein og kútveltis. Greip mig ágætlega með hægri höndinni og lenti á mjúku undirlagi með hægra hnéð sem hruflaðist aðeins. Ég er nýkominn úr gifsi og spelku á vinstri hönd vegna slitins liðbands og mátti alls ekki detta og grípa mig með henni. Þetta handaástand leiddi til færri æfinga og mjög hóflegs tímamarkmiðs.

Skömmu eftir að ég þveraði Stallánna og tók grimmu brekkuna sem tekur við strax að lokinni þeirri þverun fór að draga af mér. Ég fékk svimakast og ákvað að hægja svolítið á mér. Fannst líka eins og smá krampi væri að reyna að grípa um sig í vinstri kálfa. Þarna var ég búinn að taka eitt orkugel, þiggja tvær saltpillur frá Ingu, samferðakonu og drekka tvö glös á drykkjarstöð og sennilega um 200 millilítra úr brúsanum sem ég var með. En hitinn þegar farið var í gegnum þröngu stígana í gegnum birkið var á köflum óbærilegur.

„Skömmu eftir Rauðhóla dynja ósköpin yfir. Krampakast sem grípur allan vinstri kálfan og innanvert lærið vinstra megin. Þetta var eins og að hafa lent í bjarndýragildru.“

Stoppaði og pissaði í Vesturdal og fannst það góð vísbending um að vatnsbúskapur væri með besta móti. Tók tvö glös á drykkjarstöðinni þar og orkugel númer tvö. Karamelluleðju með salti. Við Hljóðakletta fann ég að ég var orðinn mjög þreyttur. Gekk allar brekkurnar og spjallaði við tvo sem voru að hlaupa úr Hólmártungum. Ég ákvað að geyma síðasta gelið þar til ég yrði kominn hálfa leið yfir sléttuna frá Rauðhólum fram á brún Ásbyrgis. Drakk tvö glös á drykkjarstöðinni hjá Rauðhólum og hélt af stað í síðustu 10 kílómetrana. Þetta yrði að taka á hörkunni og yrði sársaukafullt. Það var bara að hafa það. Bíta á jaxlinn og undir engum kringumstæðum mætti Hilmar Már Aðalsteinsson ná mér. Ég hafði kvatt hann með miklum gorgeir fyrr í hlaupinu og það yrði skelfileg háðung ef hann myndi síga framúr mér. Ég vissi líka að ég gæti ekkert gert í því ef það gerðist. Ég var eins og sitjandi önd í brautinni.

Skömmu eftir Rauðhóla dynja ósköpin yfir. Krampakast sem grípur allan vinstri kálfan og innanvert lærið vinstra megin. Þetta var eins og að hafa lent í bjarndýragildru. Ég byrjaði strax að ganga og reyna að nudda þetta úr mér og það tókst með tíð og tíma. Drekka, drekka, drekka. Kláraði vatnið. Tók síðast gelið. Komst út að brún Ásbyrgis en mátti sjá á eftir fjöldanum öllum af hlaupurum fara framúr mér áður en það gerðist. Ekkert við því að gera. Ég var núna farinn að keppa við að ná að ljúka þessu hlaupi á undir fjórum tímum. Þarna var Lára, dóttir mín, ásamt fleirum að brynna hlaupurum og þar var hægt að fá kók og vatn. Tók tvö kókglös.

Óli, sonur minn sem var að hlaupa 13 kílómetra, náði mér skömmu síðar og stakk mig strax af. Beið mín síðan eftir smástund með handfylli af bláberjum sem hann hafði týnt handa mér. Þarna greip krampi bæði lærin og báða kálfana á sama tíma. Mesti hryllingur sem ég hef fundið í hlaupi. Ganga sig í gegnum það. Reyna að hlaupa. Var rétt farinn af stað aftur þegar ég kom að konu sem lá við hlið stígsins og emjaði úr sársauka. Með krampa í báðum kálfum og grét. Hitinn var að drepa alla í þessu hlaupi. Við vorum tvö sem reyndum að tala hana í gegnum sársaukann. Hún yrði að standa upp, ganga þetta úr sér, anda. Drógum hana á fætur. Eftir smá stund rak hún okkur af stað. Sagðist myndu ná sér.

Hélt áfram. Ákveðinn í að hlaupa rest. Drakk vatn á síðustu stöðinni. Einn og hálfur kílómetri eftir. Ekki hætta að hlaupa. Hlaupa nó matter the pain. Muna Murakami: Sársauki er óumflýjanlegur, þjáning er val. Loksins kominn út á brún. Heyrði í markinu. Svo birtist það. Hlaupa. 300 metrar eftir. Og loksins var þetta búið. Þrír landvættahringir að baki. Þessi var sá langerfiðasti. Fékk mér kók, gatorade, hleðslu, vatnsmelónu, engiferbjór. En ég var í rusli. Óglatt, með hausverk, kríthvítur í framan. Af hverju gerir maður sér þetta?

Rúmum klukkutíma síðar var ég ekkert að verða betri. Lækna- og hjúkrunagengið í Landvættunum dró mig inn í sjúkrabíl. Það þarf að gefa þessum manni vökva í æð og það strax: þetta er gítarleikarinn í partíinu í kvöld. Við ætlum að bjarga þessum manni. En þá ber svo við engar nálar eru í vettvangsbílnum, þær eru pantaðar og koma skömmu síðar. Ég fæ nálar í báða handleggi og vatni er gusað inní skrokkinn á mér. Það er ákveðið að setja mig í hjartalínurit á Húsavík, til öryggis. Fór strax að líða betur en það var ekki fyrr en byrjað var á fjórða pokanum inni á sjúkrahúsinu sem mér varð mál að pissa. Búið að setja rúmlega þrjá lítra inná kerfið. Ég var gersamlega að skrælna að innan. Gísli læknir sagði mér að ég væri good to go.

Ég fékk hrísgrjónagraut, fór í sturtu og rölti niður á veg og setti þumalinn uppí loftið. Áttundi bíll stoppaði og maður sem býr rétt utan við Húsavík skutlaði mér til móts við Brynhildi sem var á leið eftir mér. Við mættumst á miðri leið og maðurinn sem ók mér tók við puttaferðalangnum sem hún tók uppí við Ásbyrgi. Svona virkar karma. Mætti í veisluna sem var eitt af þessum goðsagnakenndu útilegupartíum. Fjórir gítarleikarar og meira að segja Guðni forseti mættur. Spilaði og söng í tvo og hálfan tíma og lét mig svo hverfa inní hlýjan svefnpokann og steinsofnaði við óminn úr hörðustu næturúlfunum. Stálsleginn daginn eftir. Ég veit af hverju ég geri þetta. Þetta er lífið.