Nú þegar Vetur konungur er farinn að minna á sig – með styttri, kaldari dögum og ófyrirsjáanlegum veðurskilyrðum – þá er tími til að verja bæði þig og götuhjólið þitt fyrir náttúruöflunum.
Sumir leggja hjólunum sínum í geymslu yfir veturinn meðan aðrir draga fram hjól sem eru meira við hæfi. Það er þó ekki á allra færi að eiga fleiri en eitt hjól enda kostar það bæði pláss og peninga. En það er engin ástæða til að hætta að hjóla. Hér eru nokkrar leiðir til að veturvæða hjólið sem þú átt fyrir og framlengja þannig hjólatímabilið.
Nagladekk
Mjög varasamt getur verið að hjóla í hálku. Göngu- og hjólreiðastígar reynast oft mun hálli en götur þar sem bílar aka, einfaldlega vegna þess að þeir stígar eru ekki saltaðir. Smá hálka ætti þó ekki að vera til fyrirstöðu því rétt eins og með bíla þá er hægt að kaupa nagladekk undir reiðhjól. Þykkari dekk minnka líkurnar á að þau springi og naglar veita hámarks grip. Sumir láta duga að hafa aðeins nagladekk að framan en öruggast er að hafa bæði dekkin negld.
Ljós
Á veturna er nauðsynlegt að vera vel upplýstur. Æ fleiri kjósa að hjóla til vinnu eða í skóla og þurfa þeir oftar en ekki að hjóla í mykri. Hvernig ljós þú velur ræðst af því hvar og hvenær þú hyggst nota þau. Hvort sem þú ætlar þér að hjóla á upplýstum íbúagötum eða dimmum sveitavegum þá hefur úrvalið af LED ljósum aldrei verið betra.
Bretti
Þegar það er blautt úti kemur sér vel að vera með svokallað bretti. Það verndar bæði þig og hjólafélaga þína fyrir vatni og drullu sem skýst undan hjólinu þínu og upp á bak eða beint í andlitið á þeim sem hjólar fyrir aftan þig.
Hnakktaska
Það er ekki gaman að vera fastur úti í vegkanti með sprungið dekk, sérstaklega ekki þegar það er kalt og blautt úti – eins og oft er á veturna. Í þeim aðstæðum er gott að vera með litla hnakktösku á hjólinu, sem hefur að geyma verkfærasett með öllu því helsta sem þarf til að koma hjólinu af stað aftur ásamt slöngum til vara og límlausum bótum.
Loftpumpa
Varaslanga gerir lítið gagn án loftpumpu. Til er sérstök pumpa sem hægt er að festa beint á hjólið þitt svo hún geti fylgt þér hvert sem þú ferð. Slík pumpa gerir þér einnig kleift að minnka þrýstinginn í dekkjunum hraðar en með minni pumpu.
Hreinlæti
Hjól eru mun fljótari að verða skítug á veturna. Til að koma í veg fyrir ryð er mikilvægt að þrífa þau reglulega. Sápuvatn dugir vel en þú getur líka keypt sérstakar hreinsivörur fyrir hjól sem auðveldað þér verkið. Huga þarf sérstaklega að keðjunni svo ef þú hefur ekki tíma til að djúphreinsa hjólið eftir hverja hjólaferð, gefðu þér allavega tíma til þess að þurrka keðjuna og smyrja hana.
Ef buddan leyfir þá geturu líka bara skellt þér á eitt svona tryllitæki…