Björg Árnadóttir var aldrei mikil útivistarkona. „Vindurinn mátti helst ekki rugla hárinu á mér,“ segir hún. Hún fór samt vissulega í ferðalög og hefur alltaf haft ástríðu fyrir landinu. Þegar amma hennar náði sér í bílpróf um fimmtugt fór hún að taka hana með sér í bíltúra um landið. Og pabbi hennar er landafræðingur. Þannig að jú, einhver áhugi var líklega alltaf fyrir hendi.

Hún hljóp heil lifandis ósköp. Þegar hún var 18 ára hljóp hún fyrst út götuna, Bakkagerðið, heila 300 metra. Það var um svipað leyti og foreldrar hennar skildu. Kannski var þar samhengi. Hún var svo uppgefin eftir hlaupið að hún hélt að hún myndi missa úr sér tennurnar. Síðar á lífsleiðinni átti Björg eftir að hlaupa Laugaveginn fjórum sinnum, hlaupa fjögur maraþon og verða Íslandsmeistari í maraþoni tvisvar sinnum.

„Manneskjur taka ákvarðanir sem fela í sér algjöra u-beygju, halda út í óvissuna og út fyrir þægindarammann.“

Björg er hlaupandi dæmi þess að fátt er nokkurn tímann of seint. Maður getur gert alls konar hluti og byrjað á þeim núna. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og með MBA. Á fimmtugsaldrinum var tilveran komin í þann farveg sem að var stefnt. Hún sá um reksturinn í stöndugu lyfjaumboði, var með fín laun, ferðaðist tólf sinnum á ári til útlanda og gisti á fínustu hótelum. En það vantaði eitthvað. „Mér finnst eiginlega meira gaman að gista á hostelum,“ segir hún. „Mig langar að hafa fyrir hlutunum.“

Hvað gera bændur þá?  Jú, útivistaráhuginn hafði kviknað. Hún og maðurinn hennar, Markús Guðmundsson forstöðumaður Hins hússins í Reykjavík, fóru í leiðsögumannanám árið 2008, þegar Björg var 44 ára. Hún fann að hún var algjörlega blind á fjöllum, sem er vont fyrir leiðsögumann. Hún rataði ekkert. Þetta fór í taugarnar á henni. Eitthvað varð að gera í þessu. Björg tókst á við vandann og gekk í björgunarsveitina Ársæl. Eins og fólk gerir þegar það er 45 ára og svolítið áttavillt.

Björg Árnadóttir

Þar með var Björg komin á fjöll. En víkur þá sögunni að Sigga. Sigurður Bjarni Sveinsson er upphafsmaðurinn að Midgard Adventures, eða Miðgarði ævintýramiðstöð, sem nú er risin á Hvolsvelli, með 48 hostelrýmum, útivistarbúð, veitingastað, bar, heitum potti, gufubaði, ferðaráðgjöf, skipulögðum fjallaferðum og yfir 20 manns í vinnu.  Siggi var að læra stærðfræði og umhverfisfræði í Bandaríkjunum rétt fyrir hrun. Hann hefur alltaf verið fjallamaður, tók þátt í leitum sem gutti og varði ómældum tíma til fjalla upp úr unglingsárunum, með vinum sínum — einn af þeim er sonur Bjargar og Markúsar— endalaust að klifra í gljúfrum og stökkva í fossa.

Siggi fór í ferð til Nýja-Sjálands árið 2007 í miðju náminu. Þar birtist honum hugljómun. Hann sá að þar var verið að bjóða upp á ævintýraferðir að nákvæmlega svona fossum og gljúfrum og hann ólst upp við. Heilu miðstöðvarnar voru fyrir hendi, að þjónusta ævintýrafólk, fólk sem vildi vera úti að njóta náttúrunnar.  Þannig að Siggi fór að hugsa. Á ferðum sínum um Nýja Sjáland rissaði hann hugmyndir sínar á blað. Hann hætti í stærðfræðinni og fór heim.

„Í upphafi var jeppi. Einn jeppi og Siggi. Árið var 2010.“

Í upphafi var jeppi. Einn jeppi og Siggi. Árið var 2010. Siggi hafði hug á að bjóða upp á ferðir á Suðurlandi á jeppanum. Ferðaþjónustan var hins vegar ekki alveg farin á flug. Það var lítil hreyfing. Þá gaus Fimmvörðuháls og svo Eyjafjallajökull. Siggi stofnaði fyrirtæki í hvelli, þjónustaði fullt af fjölmiðlafólki sem vildi komast nálægt gosinu, fékk fullt af kynningu og í kjölfarið fór ekki bara fyrirtækið hans Sigga af stað, heldur öll ferðaþjónustan á Íslandi.

Ári síðar gekk Arnar Gauti (Addi), áðurnefndur sonur Bjargar, til liðs við Sigga og svo Stefnir Gíslason, vinur þeirra. Hér voru þrír vinir að gera það sem þá langar mest til, að vera á fjöllum með fólki.

En bókhaldið, svo hjálpi okkur almættið. Það var allt í bakpokanum. Samanvöðlað. Neðst. Hver nennir að hanga í excel þegar það er hægt að ganga á fjall?

Sigurður Bjarni Sveinsson, Siggi.

„Siggi hafði verið svolítið hjá okkur eitt sumar í Reykjavík og hjálpað okkur að byggja pall. Þá sagði hann okkur frá þessum hugmyndum sínum um ævintýramiðstöð,“ segir Björg. Þá var hún byrjuð í björgunarsveitinni, og hugsanir um breytingar ennþá að sækja á hana. „Það var komið á þann punkt að ég varð að spyrja mig hvort lífið ætti að vera þægilegt, í sófanum heima í góðri vinnu með fín laun, eða hvort það ætti að vera skemmtilegt.“

Björg ákvað að taka sér lengra sumarfrí árið 2013. Hún flutti austur á Hvolsvöll í kommúnuna til strákanna. „Við sátum þar með tölvur á hnjánum og ég fór að leita að nótum og flokka þær. Eftir að ég hafði verið þarna í viku ákvað ég að segja upp í vinnunni. Ég viðurkenni að ég var ekki alveg búin að ræða það við mitt fólk. Ég get verið svolítill einfari í ákvarðanatökum.“

Er það ekki svona sem hlutir gerast og eitthvað spennandi verður til? Manneskjur taka ákvarðanir sem fela í sér algjöra u-beygju, halda út í óvissuna og út fyrir þægindarammann. Á bak við svona verkefni eins og Midgard Adventure er fullt af svona sögum. Þær spretta beinlínis fram um leið og maður stígur inn fyrir dyrnar. Sveinn Sigurðsson, Svenni, er pabbi Sigga. Hann byggði upp byggingarfyrirtæki og þjónustu fyrir steypuvinnu á Hvolsvelli, stórt hús með stórum bílskúrshurðum til að keyra inn steypubíla. Svenni ákvað að fylgja syni sínum í átt til ævintýranna og fara úr steypunni í ferðaþjónustu. Rétt eftir að Björg kom austur var ákveðið að breyta þessu húsi í Midgard Adventure. Breytingarnar eru einstaklega vel heppnaðar. Inni í forsalnum sér maður enn móta fyrir gömlu steypubílskúrsdyrunum.

Í desember 2016 stóð Svenni uppi á þaki við smíðar.  Sú sjón á örugglega eftir að verða öllum þeim sem sáu mjög eftirminnileg, því ekki var bara fárviðri þennan dag heldur er Svenni líka með krabbamein á lokastigi. Þannig er Svenni dæmi um hið sama: Það er aldrei of seint að breyta til.

Sneinsnar frá Hvolsvelli eru magnaðir staðir til ævintýraferða.

„Ég kom hérna í hengirúmi eins og Soffía frænka,“ segir Björg og hlær. „Þeir koma mér ekki til baka.“ Hún segir líf sitt núna vera í fimm ferðatöskum. Líf hennar snúist um það að henda reiður á því hvað er í hverri tösku. Það truflar hana ekki mikið. „Mér er alveg sama hvar ég sef og alveg sama hvar ég er. Ég gæti hugsað mér að verja svona 15 árum í það að fara hringinn í kringum landið og reka ferðaþjónustufyrirtæki, og fara svo aftur til Reykjavíkur.“

Hún hleypur enn, en núna eiginlega bara utanvegar, úti í náttúrunni. Hún er hætt að hlaupa með klukkuna. Tíminn skiptir ekki máli lengur. Hún fer líka á hjólinu upp á fjöllin í nágrenninu og syndir mikið. Markmiðið, segir Björg — fyrir utan gleðina og hamingjuna — er að halda sér í viðunandi formi. Hún vill ekki þurfa að segja nei. Hún vill alltaf geta farið á Hvannadalshnúk á morgun.

Stemmningin í Miðgarði er frábær, segir Björg. Allir eru góðir vinir og breiddin í starfsliðinu er einstaklega mikil. Hún tók starfsmannaviðtöl um daginn. Sem framkvæmdastjóra er Björgu mjög umhugað um að starfsfólkið festist ekki í styrkleikum sínum. „Þau eru svolítið upptekin af því að gera meira af því sem þau gera vel. Ég vil að þau geri meira af því sem þau gera ekki vel.“

Þannig vill Björg hafa það. Hún fílar áskoranir. Fullt af fólki er mjög gott í því að liggja í sófanum og horfa á sjónvarpið. En kannski er það ekkert líf, þótt Game of Thrones sé vissulega spennandi. Á Hvolsvelli er semsagt risin miðstöð fyrir fólk sem vill skora sjálft sig á hólm, fara út og lifa ævintýrið.

Eitt dæmi af Björgu að lokum:

Undanfarin ár hefur hún fundið fyrir töluverðri lofthræðslu á fjöllum.

Hvað gerði hún í því?

Jú, hún skráði sig á brjálað fjallaskíðanámskeið. Þar lærir hún að fara á hæstu toppana og niður bröttustu brekkurnar.

Það þýðir ekkert annað.