Þann 9. febrúar næstkomandi gefst þér tækifæri til að láta ljós þitt skína en þá fer fram Norðurljósahlaup Orkusölunnar. Um er að ræða 5 km. skemmtiskokk, þar sem þú færð að upplifa upplýstar götur Reykjavíkurborgar eins og þú hefur aldrei séð þær!

Allir þáttakendur fá skemmtilegan gjafapoka með upplýstum varningi eins og glóandi gleraugum, hring og armbandi, sem hægt er að nota í hlaupinu. Þáttakendur eru hvattir til að klæðast litríkum fatnaði, hafa með sér upplýsta aukahluti og þannig vera hluti af sýningunni alveg frá upphafi til enda. Hér á orðtiltækið „minna er meira“ alls ekki við. Þeim mun ýktari litir, tryllt ljós og truflaðir aukahlutir, því betra!

Norðurljósahlaup Orkusölunnar er hluti af Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar. Hlaupið er ekki keppni heldur upplifun sem snýst um heilbrigða líðan, að hafa gaman af lífinu og að lýsa upp hversdagsleikann. Það verður því engin tímataka í hlaupinu.

Upphitun hefst kl. 18, í Hafnarhúsinu, þar sem DJ Dóra Júlía og Eva Ruza þeyta skífum og peppa lýðinn fyrir hlaupið sem er ræst kl. 19. Hlaupið endar svo aftur í Hafnarhúsinu þar sem JóiPé og Króli halda partýinu gangandi frameftir kvöldi.

Skráning er hafin á https://www.nordurljosahlaup.is/