Það er auðvelt að gleyma sér í amstri dagsins og allt of margir láta eigin heilsu mæta afgangi. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og því ættum við að rækta hana reglulega – hvort sem það er í líkamlegum eða andlegum skilningi. Sumir halda að hreysti fáist aðeins með hoppi og skoppi en það eru fleiri leiðir leið til þess að öðlast endurnærandi áhrif þess að rækta líkama og sál. Ein þeirra er jóga.

Í Elliðárdalnum fer fram svokallað skógarjóga, undir handleiðslu Ragnheiðar Ýrar Grétarsdóttur. Forvitin að vita meira fengum við að fljóta með í einn tíma og spyrja Ragnheiði spjörunum úr.

20181024_183536

Ert þú í fullu starfi sem jógakennari?

„Nei, ég er í öðru starfi þar sem ég sit mikið við tölvu og finnst því frábært að hafa jógakennsluna með. Ég kenni bæði skógarjóga einu sinni í viku og svo jóga fyrir eldri borgara einu sinni í viku líka.“

Hvaðan kom hugmyndin um skógarjóga?

„Mér finnst mjög gaman og endurnærandi að vera úti í náttúrunni og á sama hátt bæði gaman og endurnærandi að stunda jóga. Mig langaði því að prófa að sameina þetta tvennt og athuga hver útkoman yrði.“

Hvað hefur þú kennt skógarjóga lengi?

„Ég var í jógakennaranámi veturinn 2007 til 2008 og byrjaði strax um haustið með skógarjógað. Ég hef verið með þessa tíma alveg síðan.“

Hvers vegna að stunda jóga úti frekar en inni?

„Það er mismunandi hvað hentar hverjum og einum og því í raun frábært hversu margar tegundir af jóga eru í boði. Sumir sem fíla jóga, vilja fá útiveru líka, kannski eftir langan vinnudag inni, og þá er frábært að geta boðið upp á jóga úti. Það er extra bónus að fá að vera úti í náttúrunni, anda að sér fersku lofti, hlusta á náttúruhljóðin, njóta árstímans og gera æfingar í leiðinni. Það er erfitt að lýsa því nákvæmlega hvað það er sem gerist við að vera úti í náttúrunni en á einhvern hátt þá róar það hugann og veitir vellíðan sem svo magnast ennþá meira upp með jóganu.“

Praktískar upplýsingar

Er námskeiðið í boði fyrir alla?

„Já, það eru allir velkomnir að koma og vera með. Ég hvet alla til að vera þægilega klæddir og í góðum skóm. Þegar það er snjór og hálka drögum við fram mannbroddana.“

Er námskeiðið í boði allan ársins hring?

„Námskeiðið er í boði allan ársins hring, nema á sumrin, sem er kannski pínku öfugsnúið því það er sennilega þægilegasti tíminn til að gera Skógarjóga. Það hefur hins vegar ekki gengið nógu vel því fólk er í sumarfríum og þá reynist oft erfitt að binda sig. Skógarjóga er því venjulega í boði frá september fram í maí.“

Hvað kostar að vera með?

„Haustnámskeiðið, sem er frá lok ágúst fram að jólum, kostar 15.900 krónur. Þeir sem byrja seinna borga hlutfallslega miðað við það hvenær þeir byrja. Einnig er hægt að mæta í staka tíma sem kosta 1.400 krónur.“

Hvert mætir maður og klukkan hvað?

„Við hittumst við inngang Árbæjarsafnsins, kl. 17:30, alla miðvikudaga.“

Við getum svo sannarlega mælt með skógarjóga. Sérstaklega fyrir þá sem hafa lítinn tíma en vilja taka sér smá stund úr degi til að vera úti og gera einmitt bara það – að vera. Eitthvað sem við gerum yfirleitt ekki nóg af.

Fyrir nánari upplýsingar bendum við á Facebook síðu námskeiðsins.