Lukka í Happ tók saman.

Avocolada

  • 3 bollar ananas
  • 1 stk avocado
  • 1 stk límóna
  • 3 bollar kókosvatn
  • 2 msk kókosolía
  • ½ handfylli mynta – laufin ekki stilkarnir

Setjið allt hráefnið í blandara og maukið vel saman.

Gefur góða holla fitu og bætir meltingu.

Er avocado hollasti ávöxtur í heimi? Hann gefur þér meinholla fitu og ríkulegt magn steinefna og vítamína svo sem potassium, magnesium, zink, járn, K vítamín, E vítamín, C vítamín, B vítamín og fólöt. Góður díll í einum og sama ávextinum!

Kókosolía er svo ein af fáum olíum sem gefur okkur miðlungslangar fitusýrur sem geta hjálpað líkamanum að brenna fitu sem orkugjafa.

Ananas inniheldur meltingarensímið bromelain sem getur flýtt fyrir niðurbroti próteina og hjálpað þannig til við meltingu.

Bloody beets

  • 2 stk epli
  • ½ rauðrófa
  • 1 dl hindber

Setjið rauðrófu og epli í safapressu og pressið.  Setjið hindber í blandara, hellið safanum yfir og blandið.

Eykur úthald og bætir meltingu.

Rauðrófusafi hefur fengið á sig úthaldsstimpil eftir að vísindamenn sýndu fram á að úthald hjólreiðamanna jókst um 20% eftir neyslu á ½ lítra af rauðrófusafa. Áhrifanna gætir líklega vegna nítrata sem hafa æðavíkkandi áhrif og þar af leiðandi einnig blóðþrýstingslækkandi áhrif. Fræin í hindberjunum virka örvandi á losun úr meltingarveginum. Það er gott að hafa það í huga þegar þessi drykkur er valinn.

Bláberja-súkkulaði shake

  • handfylli klettasalat
  • handfylli grænkál
  • 1-2 msk hreint kakóduft
  • 2 msk kókosolía
  • 4 dl fersk eða frosin bláber
  • klaki

Byrjið á að setja klettasalat, grænkál og vatn eða kókosvatn í blandara og mauka saman. Bætið svo hinu hráefnu útí og blandið vel.  Hægt er að ráða þykkt hristingsins með því að nota frosin bláber eða bæta við klökum.

Lækkar blóðþrýsting og bætir minnið. 

Bæði klettasalat og kakó geta haft lækkandi áhrif á blóðþrýsting. Klettasalat, rétt eins og rauðrófa, inniheldur nítröt sem hafa víkkandi áhrif á æðarnar og geta þannig lækkað blóðþrýsting. Kakó inniheldur mikið magn flavóníða sem rannsóknir hafa sýnt að geti haft lækkandi áhrif á blóðþrýsting.  Enn ein góð ástæða til að borða dökkt súkkulaði eða hreint kakó. Bláber eru bætiefnabombur sem eru stútfullar af flavóníðum og andoxunarefnum sem geta dregið úr bólgum og bætt minnið.

Bólgubaninn

  • 2 stk gulrætur
  • 4 stilkar sellerí
  • ½ agúrka
  • þumalstærð af turmerik rót
  • 1 stk sítróna
  • ½ handfylli steinselja

Dregur úr bólgum og bætir endurheimt.

Bólguminnkandi matur er lykilatriði í dag og þessi drykkur er samsettur úr hráefni sem kæmist auðveldlega á verðlaunapall í hvaða bólguminnkandi meistarakeppni sem er. 

Auk bólguminnkandi áhrifa gefur þessi drykkur ykkur risaskammt af steinefnum, vítamínum og andoxunarefnum. Hann er því sérlega góður eftir langar og krefjandi æfingar.

Orkubomban

  • tvöfaldur espresso
  • 1 banani
  • þumalstærð engifer rót
  • ½ tsk kanill
  • 2 bollar möndlumjólk
  • klaki

Upplyfting orku og blóðsykurstjórnun.

Fyrir utan orkugefandi áhrif sem kaffi getur haft á marga þá getur koffín gert fleira gott fyrir okkur. Það getur hjálpað við að draga úr höfuðverkjum sérstaklega mígreni höfuðverk. Kanill hjálpar til við blóðsykurstjórnun með því að hafa áhrif á insúlínnæmi.